Efnisyfirlit | Foreldrahandbók
FORELDRAHANDBÓK
Knattspyrnufélagið Ægir | Barna og unglingastarf
PDF ÚTGÁFA – SÆKJA
Inngangur
Foreldrahandbók Knattspyrnufélagsins Ægis er leiðarvísir fyrir foreldra og forráðamenn barna sem taka þátt í starfi félagsins, sem og alla þá sem koma að íþróttaiðkun barnsins.
Í handbókinni er að finna upplýsingar sem nýtast í daglegu starfi, við æfingar, leiki, keppnisferðir og samskipti innan félagsins.
Markmið Ægis er að bjóða upp á faglegt, öruggt og uppbyggilegt knattspyrnustarf þar sem vellíðan, virðing og heilbrigður lífsstíll eru í forgrunni. Starfið á að stuðla að jákvæðri upplifun barna og ungmenna og styðja við félagslegan og persónulegan þroska þeirra.
Foreldrahandbókin byggir á gildum íþróttahreyfingarinnar, reglum KSÍ og reynslu af barna- og unglingastarfi.
Gildi íþróttastarfs fyrir börn og ungmenni
Þátttaka í skipulögðu íþróttastarfi hefur fjölþætt gildi. Íþróttaiðkun styrkir líkamlega heilsu, eflir félagsfærni og hefur jákvæð áhrif á andlega líðan barna og ungmenna.
Með þátttöku í íþróttum læra börn m.a.:
-
- samvinnu og virðingu
- heiðarleika og réttsýni
- að takast á við sigur og tap
- að setja sér markmið og vinna markvisst að þeim
- að fylgja reglum og bera ábyrgð á eigin framkomu
Rannsóknir sýna jafnframt að börn og ungmenni sem stunda íþróttir reglulega eru síður líkleg til að leiðast út í neikvæða hegðun og eru líklegri til að tileinka sér heilbrigðan lífsstíl.
Ægir leggur ríka áherslu á að allt barna- og unglingastarf sé rekið af fagmennsku, gleði og virðingu fyrir einstaklingnum.
Skipulag barna- og unglingastarfs Ægis
Barna- og unglingaráð Ægis
Barna- og unglingaráð Ægis hefur yfirumsjón með skipulagi og framkvæmd barna- og unglingastarfs félagsins.
Í verkahring ráðsins er m.a. að:
-
- móta stefnu í barna- og unglingastarfi
- sjá um skipulag æfinga og keppna í samstarfi við þjálfara
- halda utan um foreldrasamstarf og foreldrafundi
- veita þjálfurum aðhald og stuðning
- hafa yfirumsjón með fjáröflunum og umgjörð yngri flokka.
Stjórnarmeðlimi barna- og unglingaráðs má finna á heimasíðu Ægis:
https://aegirfc.is/yngri-flokkar/barna-og-unglingarad-aegis/
Yfirþjálfari barna- og unglingastarfs
Yfirþjálfari er faglegur ábyrgðaraðili þjálfunar og tengiliður milli barna- og unglingaráðs og þjálfara.
Helstu verkefni yfirþjálfara eru m.a.:
-
- yfirumsjón með starfi þjálfara
- stuðningur og leiðsögn til þjálfara
- samræming þjálfunarstefnu Ægis
- samskipti við foreldra vegna stærri mála eða aga mála
- að tryggja að starfið sé í samræmi við stefnu KSÍ og gildi Ægis
Yfirþjálfari:
Torfi Hjörvar Björnsson
Hlutverk þjálfara
Þjálfarar bera faglega ábyrgð á þeim flokkum sem þeir þjálfa.
Hlutverk þeirra er ekki aðeins að kenna knattspyrnu heldur einnig að skapa öruggt, uppbyggilegt og hvetjandi umhverfi.
Í hlutverki þjálfara felst m.a. að:
-
- skipuleggja og stjórna æfingum og leikjum
- skapa jákvæðan og heilbrigðan félagsanda
- veita iðkendum verkefni við hæfi
- fylgja aga- og siðareglum Ægis og KSÍ
- vera góð fyrirmynd í framkomu og samskiptum
- halda utan um mætingar og upplýsingaflæði til foreldra
Þjálfarar skulu ávallt leggja áherslu á öryggi, virðingu og vellíðan iðkenda.
Iðkendur Ægis
Iðkendur í barna- og unglingastarfi Ægis eiga að fá tækifæri til að blómstra í öruggu og jákvæðu umhverfi.
Ægir leggur áherslu á að iðkendur:
-
- geri sitt besta á eigin forsendum
- sýni samherjum, mótherjum, dómurum og þjálfurum virðingu
- fari eftir reglum félagsins og keppnisreglum KSÍ
- forðist neikvætt tal, einelti eða óæskilega hegðun
- mæti stundvíslega á æfingar og leiki
Eldri iðkendur bera aukna ábyrgð á framkomu sinni og eru hvattir til að vera fyrirmynd yngri iðkenda, bæði innan vallar sem utan.
Foreldrar og forráðamenn | Lykilhlutverk í starfinu
Foreldrar gegna lykilhlutverki í íþróttaiðkun barna sinna.
Jákvætt samstarf foreldra, þjálfara og félags skapar forsendur fyrir góðri upplifun barnsins.
Ægir hvetur foreldra til að:
-
- sýna börnum sínum jákvæðan stuðning og hvatningu
- leggja áherslu á ánægju og þátttöku fremur en úrslit
- virða hlutverk þjálfara og dómara
- forðast gagnrýni eða neikvæð ummæli á meðan leikjum stendur
- vera góðar fyrirmyndir í framkomu og samskiptum
Foreldrar eru hvattir til að taka þátt í starfi félagsins eftir því sem kostur er, m.a. við mótshöld, fjáraflanir og félagsstarf flokka.
Skráning, æfingagjöld og upplýsingamiðlun
Skráning iðkenda
Skráning í knattspyrnustarf Ægis fer fram í gegnum Abler.
Skráningartengill:
https://www.abler.io/shop/kfaegir
Æfingagjöld
Upplýsingar um æfingagjöld, greiðslufyrirkomulag og afslætti eru birtar á heimasíðu Ægis og í Abler.
Samskipti, fræðsla og forvarnir
Ægir leggur ríka áherslu á fræðslu og forvarnir í öllu starfi félagsins.
Félagið hefur núllþol gagnvart:
-
- einelti
- kynferðislegri áreitni
- andlegu eða líkamlegu ofbeldi
- neyslu vímuefna í tengslum við íþróttastarf
Í öllum slíkum málum er fylgt skýru verklagi í samræmi við leiðbeiningar ÍSÍ og KSÍ.
Foreldrar og iðkendur eru hvattir til að kynna sér sérstaklega síðuna Fræðsla og forvarnir á heimasíðu Ægis.
Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs
Allir sem koma að starfi Ægis geta leitað til samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs vegna mála sem varða:
-
- einelti eða samskiptavanda
- kynferðislega áreitni eða ofbeldi
- andlega eða líkamlega vanlíðan
Sími: 581-1009 / 839-9100 / 783-9100
Netfang: samskiptaradgjafi@samskiptaradgjafi.is
Vefur: www.samskiptaradgjafi.is
Lokaorð
Ægir vill byggja upp sterkt, samheldið og heilbrigt íþróttasamfélag þar sem börn og ungmenni fá að njóta sín á eigin forsendum.
Með sameiginlegu átaki foreldra, þjálfara, sjálfboðaliða og félagsins er hægt að skapa jákvæða upplifun sem nýtist börnum langt út fyrir knattspyrnuvöllinn.