Meistaraflokkur mætti í kvöld Aftureldingu í Borgunarbikar og fór leikurinn fram á Þorlákshafnarvelli. Það er skemmst frá að segja að gestirnir voru sterkari aðilinn í kvöld og sigruðu 0:4 eftir að hafa verið 0:2 yfir í hálfleik. Okkar menn sköpuðu sér ekki mörg færi og ógnuðu markinu lítið í föstu leikatriðum. Varnarleikurinn var ekki nógu sannfærandi en gestirnir léku vel og nýttu sín færi vel.
Það er gaman frá að segja að Þorlákshafnarpilturinn Axel Örn Sæmundsson lék allan leikinn í marki Ægis en hann er aðeins 16 ára. Strákurinn stóð sig með prýði og ekki við hann að sakast í þeim mörkum sem liðið fékk á sig.
Næsta verkefni meistaraflokks er útileikur gegn Fjarðarbyggð næstkomandi laugardag.
