Lög Knattspyrnufélagsins Ægis

i 3 Efnisyfirlit

 

1. gr. Heiti

Félagið heitir Knattspyrnufélagið Ægir. Heimili þess og varnarþing er Þorlákshöfn.


2. gr. Aðild

Félagið er eitt af aðildarfélögum Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) og að Héraðssambandinu Skarphéðni (HSK) sem er héraðssamband innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) og Ungmennafélags Íslands (UMFÍ).


3. gr. Tilgangur og starfsemi

Tilgangur félagsins er að standa fyrir iðkun og keppni í knattspyrnu, stuðla að líkamlegu, andlegu og félagslegu uppeldi með forvarnir að leiðarljósi. Að hafa yfirumsjón um rekstur alls knattspyrnustarfs unglinga- og barnaflokka frá 8. flokki upp í 2. flokk beggja kynja, og sinna afreksstarfi í meistaraflokkum karla og kvenna.


4. gr. Félagar

Félagið getur hver sá orðið sem þess óskar og samþykkir að starfa í samræmi við gildandi lög og reglur félagsins. Auk þess skulu allir iðkendur á vegum félagsins teljast fullgildir félagar. Allir þeir sem taka að sér störf í stjórnum og ráðum félagsins verða sjálfkrafa félagsmenn. Styrktarfélagar geta þeir orðið sem náð hafa 18 ára aldri (lögráða). Úrsögn úr félaginu skal tilkynna stjórn. Úrsagnir skulu teknar til greina ef viðkomandi er skuldlaus.


5. gr. Rekstur og stjórn félagsins

Aðalstjórn félagsins fer með málefni félagsins milli aðalfunda og ber endanlega fjárhagslega ábyrgð á rekstri þess, framkvæmir samþykktir félagsfunda og hefur yfirumsjón með starfsemi félagsins. Formaður boðar til stjórnar- og félagsfunda og stjórnar þeim, þó er honum heimilt að tilnefna sérstaka fundarstjóra. Formanni er skylt að boða til stjórnarfunda ef meirihluti stjórnarmanna óskar þess, enda geti þeir fundarefnis. Ritari ritar fundargerðir. Gjaldkeri innheimtir tekjur og greiðir gjöld félagsins. Gjaldkeri heldur reikninga félagsins. Meðstjórnandi aðstoðar aðra stjórnarmenn í störfum þeirra.


6. gr. Starfssvið aðalstjórnar

Aðalstjórn félagsins skipa fimm einstaklingar sem kosnir eru á aðalfundi félagsins til eins árs í senn. Kjörtímabil stjórnar er milli aðalfunda. Formaður skal kosinn sérstaklega en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi/meðstjórnendur. Allir lögráða félagsmenn félagsins geta boðið sig fram til stjórnarstarfa, en reyna skal að hafa þann kostinn að tveir aðilar úr Barna- og unglingaráði og tveir aðilar úr meistaraflokksráði veljist í aðalstjórn hverju sinni ásamt formanni. Aðalstjórn ber að efla félagið á allan hátt og gæta hagsmuna þess í hvívetna. Hún hefur umráðarétt yfir sjóðum og eignum félagsins og ræður starfsemi þess. Meistaraflokkar og unglingaflokkar skal hafa fjárhagslega aðskilda þó sameiginlegur ársreikningur sé gerður. Aðalstjórn ræður þjálfara og ákveður laun þeirra. Barna- og unglingaráð sér þó um slíkt fyrir yngri flokka.


7. gr. Reikningsár

Reikningsár félagsins er almanaksárið.


8. gr. Ráð og nefndir

Aðalstjórn félagsins skal skipa Barna- og unglingaráð (BUR) og Meistaraflokksráð til eins árs í senn. Skulu ráðin skipuð minnst 5 einstaklingum í hvoru ráði. BUR sér um allan rekstur barna- og unglingastarfs (8. flokkur upp í 3. flokk) og er skipað formanni, gjaldkera og meðstjórnendum. Sér um fjárhagslegan rekstur barna- og unglingastarfs sem er aðskilinn frá öðrum rekstri innan félagsins. Meistaraflokksráð skipuleggur umgjörð í kringum meistaraflokkana, kemur að fjáröflunum og sinnir m.a. vinnu við heimaleiki meistaraflokka. Sjá nánar sérstök erindisbréf um bæði þessi ráð.


9. gr. Aðalfundur

Aðalfundur félagsins hefur æðsta vald innan félagsins og ákvörðunarrétt í öllum málefnum þess. Aðalfundur skal halda fyrir lok apríl ár hvert. Auglýsa skal aðalfund með almennri auglýsingu eða á annan ótvíræðan hátt með a.m.k. viku fyrirvara. Heimilt er að auglýsa aðalfund á heimasíðu félagsins eða samfélagsmiðlum þess. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað. Rétt til setu á aðalfundi með málfrelsi og tillögurétt hafa allir skuldlausir félagar. Atkvæðisrétt og kjörgengi til stjórnarstarfa hafa skuldlausir félagar sem verða 18 ára eða eldri á almanaksárinu. Að auki getur stjórnin boðið öðrum aðilum að sitja fundi ef hún telur ástæðu til og hafa þeir þá málfrelsi og tillögurétt. Meðal dagskrárliða aðalfundar skulu vera:

    1. Fundarsetning formanns
    2. Kosning fundarstjóra og fundarritara
    3. Skýrsla stjórnar
    4. Reikningar félagsins lagðir fram
    5. Ákvörðun árgjalda ef einhver
    6. Lagabreytingar
    7. Kosning aðalstjórnar
    8. Kosning ráða og nefndir
    9. Önnur mál

10. gr. Aðalfundarboð og lagabreytingar

Breytingar á lögum félagsins verða aðeins gerðar á lögmætum aðalfundi með atkvæðum 2/3 hluta atkvæðisbærra félagsmanna hið minnsta. Kynna skal í aðalfundarboði ef fyrir liggja tillögur að lagabreytingum. Tillögur félagsmanna um lagabreytingar félagsins þurfa að berast aðalstjórn eigi síðar en 7 dögum fyrir aðalfund.


11. gr. Aukaaðalfundur

Aðalstjórn félagsins getur boðað til aukaaðalfundar ef nauðsyn ber til. Rétt til setu á aukaaðalfundi hafa þeir sömu og á aðalfundi.


12. gr. Tillögur um slit félagsins

Með tillögur um slit og skipti á félaginu eða samruna við önnur félög skal fara með sem um breytingar á lögum þessum og skal tekið fram í fundarboði að til standi að fjalla um slíka tillögu.


13. gr. Merki félagsins

Merki félagsins er hringlaga, gult og svart og nafn félagsins kemur þar fyrir ásamt mynd af sjávarguðinum Ægi. Aðal litir félagsins eru gulur og svartur.


14. gr. Gildistaka

Lög þessi öðlast þegar gildi og eru þá önnur lög félagsins jafnframt felld úr gildi.
Samþykkt á aðalfundi Knattspyrnufélagsins Ægis 23. apríl 2024.