Auður Helga 16 ára er íþróttamaður Ölfuss árið 2020. Hún er tilnefnd af knattspyrnufélaginu Ægi fyrir knattspyrnu og af íþrótta- og tómstundanefnd fyrir fimleika.
Í umsögn knattspyrnufélagsins Ægis segir:
Auður Helga er mjög hæfileikarík og frábær fótboltastelpa. Auður byrjaði að æfa knattspyrnu þegar hún var átta ára gömul og hefur sýnt stöðugar og miklar framfarir alla tíð, enda hefur hún mikinn metnað fyrir því að standa sig vel í því sem hún tekur sér fyrir hendur í knattspyrnunni. Auður Helga þykir mjög leikin og fylgin sér á velli og leggur sig ávallt 100% fram í æfingum og keppni. Auður Helga hefur verið valin í úrtakshóp KSÍ undanfarin ár og staðið sig þar með stakri prýði. Ef fram fer sem horfir mun Auður Helga skipa sæti í framtíðar landsliðum kvennaknattspyrnu hér á landi.
Ekki má gleyma að Auður Helga var valin í leikmannahóp til landsliðsæfinga í U16 kvenna en þar eru 28 leikmenn sem koma frá fjölbreyttum stöðum á landinu.
Við óskum Auði innilega til hamingju með titilinn og áframhaldandi velgengni í framtíðinni.
