Meistaraflokkur lék gegn Sindra í dag og fór leikurinn fram á Hornafirði. Leikið var við flottar aðstæður í blíðskapar veðri
Okkar menn voru betri aðilinn í fyrri hálfleik, héldu Sindramönnum vel í skefjum og áttu hættulegri sóknir. Ægir komst yfir á 35. mínútu þegar Keli, sem átti mjög góðan leik, sendi boltann fyrir og Áki skilaði boltanum í netið.
Síðari hálfleikur byrjaði ekki vel því heimamenn jöfnuðu leikinn úr hornspyrnu eftir klaufagang í vörn Ægis. Þegar 30. mínútur voru eftir kom Matejic inná og setti aukin kraft í sóknarleik okkar manna. Á 75. mínútu átti Keli enn góða rispu upp kantinn og kom fínum bolta inn í teig, þar var Aco mættur og kom strákunum yfir aftur. Sindramenn reyndu hvað þeir gátu til að jafna leikinn en vörn okkar manna hélt og góður sigur niðurstaðan.
