Ægismenn fengu Gróttu í heimsókn á Þorlákshafnarvöll í kvöld. Leikið var í blíðskaparveðri við frábærar aðstæður.
Fyrri hálfleikur var jafn og skiptust liðin á að halda boltanum, lítið náðu þau þó að skapa sér af færum. Er leið á hálfleikinn voru gestirnir heldur sterkari en fá alvöru færi litu dagsins ljós. En stuttu fyrir hálfleik komst Grótta yfir eftir hornspyrnu þar sem boltinn fékk að fara óáreittur í gegnum teiginn án þess að nokkur gerði tilraun til að koma honum frá. Matthew var þó grátlega nálægt því að ná boltanum en staðan í hálfleik 0:1.
Í síðari hálfleik hresstust Ægismenn og voru sterkari aðili leiksins. En eins og í fyrri hálfleik létu færin á sér standa. Nokkur góð hálffæri kveiktu þó von hjá áhorfendum og oft vantaði bara herslu muninn að okkar menn næðu að koma bolta í markið. En inn vildi boltinn ekki og niðurstaðan því 0:1 tap.
Það má sjá batamerki á leik Ægis bæði í vörn og sókn, og er það jákvætt. Næsti leikur liðsins er útileikur gegn KF næstkomandi föstudag.