Meistaraflokkur lék gegn Fjarðarbyggð á Norðfjarðarvelli í dag. Hópurinn var vel hvíldur eftir ferðalag gærdagsins og klár í slaginn þó leikið væri á gervigrasi.
Heimamenn voru heldur sterkari aðilinn í upphafi leiks en eftir stundarfjórðung komst jafnræði á og áttu bæði lið nokkrar ágætar sóknir. Staðan í hálfleik var 0:0.
Snemma í síðari hálfleik missti Fjarðarbyggð mann af velli og útlitið því gott fyrir okkar menn. Ægismenn náðu nokkuð góðum tökum á leiknum en það voru heimamenn sem skoruðu fyrsta markið á 75. mín. Eftir það sótti Ægir af kraftir og á 89. mín. komust þeir í góða sókn sem endaði með skoti í stöng frá Liam. Frákastinu náðu heimamenn sem komust í sókn og uppskáru víti, úr því skoruðu þeir og niðurstaða leiksins 2:0 tap okkar manna.
Tapið var svekkjandi miðað við gang leiksins og mátti sjá mikil batamerki frá leiknum við Aftureldingu. Næsti leikur liðsins er heimaleikur gegn Völsungi laugardaginn 24. maí.
