Við viljum reyna að endurvekja Þrettándagleðina í Þorlákshöfn og vonumst til að bæjarbúar taki vel í þá ósk. Gleðin byrjar með göngu og blysför frá Íþróttamiðstöð Þorlákshafnar þann 6. janúar kl:17:00, en þaðan verður gengið í fylgd álfakóngs, drottningar, jólasveina og hirðar þeirra að hátíðarsvæði í Skrúðgarði Þorlákshafnar. Foreldrar eru hvattir til að leyfa börnunum að taka virkan þátt í gleðinni með því að klæða sig upp í ýmis gervi, jafnvel púkagervi en einnig hvetjum við fólk til að mæta með luktir/vasaljós í blysförina til að lýsa upp gönguna. Foreldrar eru líka hvattir til að klæða sig í jólaföt – eða litrík föt til að gera gönguna enn skemmtilegri, en alls engin skylda.
Í Skrúðgarðinum verður kveikt í Þrettándabálkesti og Óttar Ingólfsson trúbador mun leiða gítarspil og söng. Og í lokin verða jólin kvödd að hætti Kiwanisklúbbsins Ölvers og Björgunarsveitarinnar Mannbjargar með flugeldasýningu. Miðum við að blysför og dagskrá í Skrúðgarði standi ekki lengur en í 1 – 2 klst.
Bæjarbúar eru hvattir til að mæta og eiga saman skemmtilega fjölskyldustund. Athugið að dagskráin tekur mið af veðri og vindum eins og gefur að skilja á þessum árstíma.
Knattspyrnufélagið Ægir í samstarfi við Sveitarfélagið Ölfus, Leikfélag Ölfuss, Kiwanisklúbbinn Ölver og Björgunarsveitina Mannbjörg.

