Nýtt ár, ný tækifæri 2021

8. janúar 2021

Nú er runnið upp nýtt ár, 2021, og vonandi verður það okkur gæfuríkara en það sem var að líða 😊

Árið 2020 var mjög svo sérstakt fyrir okkur í fótboltanum eins og fyrir alla aðra út af Covid faraldrinum. Undirbúningstímabilið sem og sjálft keppnistímabilið riðlaðist mikið og erfitt reyndist að halda öllu gangandi, æfingum og keppni í öllum flokkum. Mér reiknast til að við höfum þurft að stoppa alls þrisvar sinnum og dróst t.d. keppni meistaraflokks alveg fram í okt/nóv. Síðustu leikdagar voru skráðir 14.nóvember en reyndar voru tvær síðustu umferðinar ekki leiknar vegna ástandsins.  Eins og flest íþróttafélög lentu við í verri stöðu fjárhagslega og einhverjir styrktaraðilar duttu úr skaftinu og allur kostnaður jókst.

Annað markvert sem gerðist á tímabilinu er að það urðu breytingar á þjálfarateymi yngri flokka. Sveinbjörn Ásgrímsson lét af störfum á miðju tímabili vegna breytinga á persónulegum högum og inn kom nýr yfirþjálfari, Arnar Logi Sveinsson, sem er uppalinn Þorlákshafnarbúi og Ægismaður (þó hann spili nú með Selfoss 😊), sjá nánar fréttatilkynningur á heimasíðu frá 4.9.2020.  Lárus Arnar Guðmundsson hætti líka í lok tímabilsins, en Torfi Björnsson heldur áfram störfum og skipta hann og Arnar Logi nú með sér störfum með þjálfun yngri flokka.

Engar breytingar urðu á stjórn og/eða barna- og unglingaráði fyrir utan að Hjördís Vigfúsdóttir kom ný inn fyrir Ástu Ástráðs í barna- og unglingaráð.

Meistaraflokkur karla átti erfitt tímabil 2020 og eftir efnilega byrjun fór að halla undan fæti og lentum við í basli í neðri hluta deildarinnar þegar leið á. Deildin var reyndar ansi jöfn heilt yfir og allir gátu unnið alla fyrir utan kannski tvö efstu liðin, KV og Reynir S, en talsvert munaði á þeim og liðunum fyrir neðan.  En lokaniðurstaðan var 8.sæti fyrir okkur sem þýðir að við höfum tækifæri á að gera mikið betur á næsta tímabili í 3.deild.  Við erum búin að enduráða sama þjálfarteymi, Nenad Zivanovic og honum áfram til aðstoðar Baldvin Borgarsson og Aco Pandurevic. Í lok tímabilsins 2020 voru valdir efnilegasti leikmaður tímabilsins, markahæsti og bestur.  Brynjófur Þór Eyþórsson var valin efnilegastur. Jafnir og markahæstir urðu Brynjólfur Þór Eyþórsson, Anton Breki Viktorsson og Stefan Dabetic. Bestur var valinn Atli Rafn Guðbjartsson.

Þegar við horfum til framtíðar þýðir ekkert annað en að vera bjartsýn og passa að gefast ekki upp þó á móti blási. Við höfum fulla trú á að spennandi tímar séu framundan hjá okkur í fótboltanum og ef vel tekst til ætti árangurinn að sýna sig á vellinum.  Við vonumst auðvitað til að sjá fleiri krakkar í fótboltanum enda er fátt skemmtilegra en fótbolti.  Við höfum lengi barist fyrir því að koma umræðu og undirbúningi á byggingu fjölnota íþróttahúss á koppinn þar sem þörfin fyrir fótboltann sem dæmi er orðin afar knýjandi yfir vetramánuðina.  Ákveðnum áfanga hefur nú verið náð með tilkomu nefndar sem á að fjalla um þessi mál og vonandi tekst vel til sem fyrsta skref í þessum efnum sem getur síðan leitt til að óskir okkar rætist loksins.

Um leið og við þökkum öllum sem komu að starfinu á síðasta ári, velunnurum og foreldrum og iðkendum, óskum við ykkur öllum velfarnaðar á nýju ári 2021 😊

Bestu kveðjur og Áfram Ægir 😊
Formaður

Atli Rafn Guðbjartsson
Brynjólfur Þór Eyþórsson
Stefan Dabetic
Anton Breki Viktorsson

Styrktaraðilar