Sveinbjörn Jón Ásgrímsson ráðinn meistaraflokksþjálfari hjá Ægi

19. október 2017

Knattspyrnufélagið Ægir hefur ráðið Sveinbjörn Jón Ásgrímsson þjálfara meistaraflokks karla næstu tvö tímabil.  Sveinbjörn er fæddur 1968 og er uppalinn Þorlákshafnarbúi. Hann átti farsælan knattspyrnuferil og spilaði meðal annars með Ægi, Hvöt, Tindastól og Skallagrím á árum áður. Hann sneri sér síðan að þjálfun og hefur komið að þeim störfum víða og líka hér í Þorlákshöfn. Hann þjálfaði hjá Ægi frá 2007 til 2010 og var bæði með yngri flokka og meistaraflokk karla. Var síðasta sumar sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks, en tekur nú við keflinu sem aðalþjálfari. Ásamt því að sinna meistaraflokksþjálfun mun Sveinbjörn einnig sinna starfi yfirþjálfara yngri flokka ásamt flokkaþjálfun. Félagið býður Sveinbjörn hjartanlega velkomin til starfa á ný sem þjálfara meistaraflokks og hlakkar til að starfa með honum við að efla meistaraflokk Ægis enn frekar á næstu misserum.

Styrktaraðilar